Aukin tíðni bæði sáraristilbólgu og Chrons-sjúkdóms hefur verið staðfest í ýmsum rannsóknum, þó hefur tíðni Crohns-sjúkdóms aukist mest. Sáraristilbólga er ennþá algengastur bólgusjúkdóma í þörmum, en munurinn er minni nú en á miðri síðustu öld. Nýgengi sjúkdómsins er mælt = Ný tilfelli á hverja 100.000 íbúa. Í danskri rannsókn var staðfest tvöföldun á tíðni sáraristilbólgu frá árinu 1978 til 2002. Niðurstöðurnar voru þær að tíðnin væri 17/100.000/ár og algengi 294/100.000, sem þýðir að um 850 einstaklingar séu greindir á ári og að um 15.000 íbúa Danmerkur séu með sáraristilbólgu. Talað er um „sand-aukningu“ en ekki eingöngu að fleira fólki sé vísað í rannsókn til að kanna hvort sjúkdómurinn sé til staðar. Nýgengi sáraristilbólgu í Bandaríkjunum og Evrópu er hátt eða 8 til 14/100.000. Tíðnin er mun lægri í Afríku og Asíu en virðist þó fara vaxandi í þessum heimsálfum. Á Íslandi hefur tíðnin aukist mikið frá 1950. Í grein Sigurðar Björnssonar sem birtist árið 2015 í "Scandinavian Journal of Gastroenterology" kemur fram að nýgengi sáraristilbólgu á Íslandi er ca. 22 á hverja 100.000 íbúa sem er með því hæsta í heiminum. Sáraristilbólga er jafn algeng meðal karla og kvenna, með hæstri tíðni á aldrinum 15-25 ára. Sjúkdómurinn getur komið fram á hvaða aldri sem er, en er sjaldgæfari hjá börnum, meðal þeirra er tíðnin lægri en 5/100.000/ár.
Sáraristilbólga er misalgeng í mismunandi heimshlutum. Sjúkdómurinn er algengastur í Norður-Ameríku og Evrópu. Innan Evrópu er algengið mest í löndum sem eru norðarlega. Sjúkdómurinn er algengur meðal gyðinga og sjaldgæfur hjá fólki af asískum og afrískum uppruna. Óþekktir þættir í vestrænum lifnaðarháttum og erfðafræðileg tilhneiging er álitin vera orsök þess að sáraristilbólga er algengari í þeim heimshluta sem við búum í.