Crohn's sjúkdómur
Svæðisgarnabólga (l. enteritis regionalis) tilheyrir flokki langvinnra bólgusjúkdóma í þörmum (e. inflammatory bowel disease, IBD). Sjúkdómnum var fyrst lýst af dr. Burril Bernard Crohn árið 1932 og dregur nafn sitt af honum. Í rannsóknum hefur komið í ljós aukin tíðni sjúkdómsins, sem er algengastur hjá ungu fólki. Ekki er nákvæmlega vitað hver orsök sjúkdómsins er, en í sjúkdómsferlinu raskast ónæmisvarnir líkamans. Langvinn bólguviðbrögð valda bólgu, roða og sárum í þörmunum. Fólk með Crohns-sjúkdóm fær kviðverki, niðurgang og í slæmum tilvikum veldur sjúkdómurinn þyngdartapi. Sjúkdómurinn getur valdið þrengslum í meltingarvegi, ígerð og fistlum. Útbreiðsla sjúkdómsins er ósamfelld, þ.e. sum svæði í meltingarveginum geta sýkst en heilbrigð svæði geta verið á milli þeirra; hann getur breiðst út hvert sem er í meltingarveginum, frá munni til endaþarmsops. Algengast er þó að hann sé staðbundinn í neðsta hluta smáþarma og aðliggjandi hluta ristils (sjúkdómur í smágirni (ileum) og botnristli (cecum)). Crohns-sjúkdómur er oftast meðhöndlaður með lyfjum en í sumum tilvikum getur skurðmeðferð gagnast best. Gangur sjúkdómsins er breytilegur með tilhneigingu til bakslags eftir að tekist hefur að draga úr einkennum með lyfjameðferð eða skurðaðgerð.
Hér fyrir neðan má sjá svör við algengum spurningum um Svæðisgarnabólgu ( Crohn´s sjúkdóm )