CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Crohns-sjúkdómur er fyrst og fremst meðhöndlaður með lyfjum í þeim tilgangi að draga úr virkni ónæmisvarna þarmaslímhúðarinnar. Forsendur fyrir vali á lyfjameðferð eru mat á alvarleikastigi sjúkdómsins, staðsetningu og tegund (virkni sjúkdómsins og flokkun).

5-amínósalicýlsýru-lyf (5-ASA): Dæmi: Súlfasalasín, mesalasín. Lyfin draga úr bólgusvörun í þarmaslímhúðinni, en nákvæmlega hvernig verkun er háttað er enn óljóst. 5-ASA má nota til meðhöndlunar á vægum virkum Crohns-sjúkdómi. Ekki hafa verið færðar sönnur á fyrirbyggjandi áhrif þess á virkni sjúkdómsins eftir að sjúkdómshléi er náð.Lyfið er í töfluformi til inntöku eða í stílaformi eða sem lausn til staðbundinnar notkunar í endaþarm.

Lyf

Barksterar - Barksterar eru notaðir til meðferðar á virkum Crohns-sjúkdómi, en eru ekki notaðir til fyrirbyggjandi meðferðar. Búdesóníð er gervinýrnahettuhormón (barksteri), það er gefið sem forðalyf, það tryggir losun virka innihaldsefnisins neðst í smágirninu og efst í ristlinum. Mestur hluti búdesóníðs sem frásogast inn í blóðrásina umbrotnar í lifrinni, þess vegna eru aukaverkanir af lyfinu fáar.

Búdesóníð er árangursríkt til meðhöndlunar á vægum til í meðallagi mikið virkum

Crohns-sjúkdómi, sem staðbundinn er á smágirnis og botnristilssvæðinu (ileocecal svæðinu), en verkar ekki eins vel og prednisólon þegar sjúkdómurinn er svæsinn. Lyfið er tekið inn í töfluformi.

Prednisólon er barksteri sem verkar almennt (þ.e. virkar um allan líkamann) og hamlar virkni ónæmiskerfisins á árangursríkan hátt með því að hindra myndun fjölda boðefna í bólguferlinu. Næstum allur skammturinn sem tekinn er inn frásogast úr þörmunum, sem veldur áhrifum víðar en í þörmunum (aukaverkunum). Prednisólon er árangursríkt til meðhöndlunar á Crohns-sjúkdómi og er notað við í meðallagi alvarlegum til alvarlegum, virkum sjúkdómi. Lyfið er tekið inn í töfluformi.

Önnur ónæmisbælandi lyf: Azatíóprín og 6-merkaptópúrín draga úr bólguferlinu með því að hamla skiptingu og þroskaT-eitilfrumna. Bæði lyfin má nota við virkum Crohns-sjúkdómi en oft þarf að nota önnur lyf til viðbótar þar sem verkun næst ekki fyrr en eftir nokkra mánuði. Bæði lyfin má gefa til að fyrirbyggja bakslag hjá einstaklingum sem fá tíðar versnanir og þannig má draga úr þörf fyrir barkstera. Auk þess er meðferðin árangursrík hjá sjúklingum sem ekki geta hætt á barksterameðferð án þess að fá bakslag. Um það bil 9% þurfa að hætta meðferðinni vegna aukaverkana. Sumar aukaverkanir eru skammtaháðar, en aðrar eru það ekki og orsakast af óþoli fyrir virka innihaldsefninu.

Metótrexat er einnig ónæmisbælandi lyf. Það er árangursríkt til að ná tökum á sjúkdómnum og til að fyrirbyggja bakslag. Það eru ekki fyrirliggjandi eins sterkar sannanir fyrir verkun metótrexats og því takmarkast meðferðin við einstaklinga sem ekki þola azatíóprín og 6-merkaptópúrín.

 

Sýklalyf - Metrónídasol og síprófloxasín eru sýklalyf sem verka á bakteríur í þörmunum. Þau geta dregið úr sjúkdómsvirkni Crohns-sjúkdóms en eru sjaldan notuð.

Meðferð með lífefnalyfjum: Dæmi: Infliximab, adalimumab. Á flókinn og enn ekki fullþekktan hátt hemja nýju lífefnalyfin bólgusvörun í Crohns-sjúkdómi. Á sama hátt dregur úr bólguferli fjölda annarra sjálfsofnæmissjúkdóma, t.d. iktsýki, sóra, sóragigtar og hryggiktar. Lyfin samanstanda af heilum mótefnum eða hluta úr mótefnum sem beinast gegn boðefninu TNF-alfa (tumor necrosis factor alfa). Með því að blokka boðsameindina dregur úr skiptingu og virkni T-eitilfrumna og sjúkdómsvirknin minnkar. Einstaklingar sem ekki hafa haft gagn af hefðbundinni lyfjameðferð eða sem hafa haft verulegar aukaverkanir af henni geta oft haft gagn af meðferð með lífefnalyfjum. Meðferðinni má beita til að ná stjórn á sjúkdómnum og sem fyrirbyggjandi meðferð hjá þeim sjúklingum sem hafa haft verulegt gagn af meðferðinni. Lyfið er gefið í bláæð eða með inndælingu undir húð.

Einstaklingar með hjartabilun mega ekki nota lífefnalyf. Eins á að gera hlé á meðferð ef sjúklingur er með sýkingu þegar komið er að lyfjagjöf, þ.á m. ígerð vegna Crohns-sjúkdóms, þar sem bæling ónæmiskerfisins getur leitt til þess að sýking versni. Áður en meðferðin er hafin þarf að athuga hvort sjúklingurinn er með berkla. Almennt eru lífefnalyf álitin örugg en ekki eru enn fyrirliggjandi nægilegar upplýsingar varðandi langtímaverkun meðferðarinnar.