Colitis Ulcerosa
Sáraristilbólga tilheyrir flokki langvinnra bólgusjúkdóma í þörmum (e. inflammatory bowel disease, IBD). Sjúkdómnum var fyrst lýst af af Wilks og Moxon árið 1875, en þegar fyrir árið 0 var langvinnum blóðugum niðurgangi lýst af m.a. Hippókratesi. Í sjúkdómsferlinu raskast ónæmisvarnir líkamans. Sáraristilbólga getur komið fram á hvaða aldri sem er, en algengast er að hún komi fram hjá fólki á aldrinum 15-25 ára. Á síðustu áratugum hefur verið skráð aukin tíðni sjúkdómsins, en orsök þessarar aukningar er ókunn. Sáraristilbólga leggst alltaf á endaþarminn og teygir sig mislangt upp eftir ristlinum. Allur ristillinn getur orðið undirlagður af sjúkdómnum, en aldrei smáþarmarnir. Bólgusvörunin er staðbundin í efsta lagi slímhúðarinnar og myndar yfirborðssár sem blæðir úr. Fólk með sáraristilbólgu fær blóðugan niðurgang og í slæmum tilvikum kviðverki, þyngdartap og hita. Sjúkdómurinn er meðhöndlaður með lyfjum, en í slæmum tilvikum og hjá sjúklingum með viðvarandi sjúkdómsvirkni getur skurðaðgerð verið besti meðferðarkosturinn. Gagnstætt við Crohns-sjúkdóm er litið svo á að sáraristilbólga sé læknuð eftir skurðaðgerð. Gangur sjúkdómsins er breytilegur með tilhneigingu til bakslags eftir að tekist hefur að draga úr einkennum með lyfjameðferð.
Hér fyrir neðan má sjá svör við algengum spurningum um Sáraristilbólgu ( Colitis Ulcerosa )