CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Fjölskyldusaga um bólgusjúkdóm í þörmum er almennt algengari hjá fólki með Crohns-sjúkdóm en fólki með sáraristilbólgu, en báðir sjúkdómarnir eru algengari í ákveðnum fjölskyldum samanborið við það sem almennt gengur og gerist. Systkini einstaklings með sáraristilbólgu eru í 10-20 sinnum meiri áhættu á að fá sjúkdóminn. Rannsóknir á ein- og tvíeggja tvíburum staðfesta að ákveðin genasamsetning eykur áhættuna á að fá sáraristilbólgu. Hjá eineggja tvíburum er fylgnihlutfallið 14‑19% á móti 0-5% hjá tvíeggja tvíburum. Genasamsetning er eins hjá eineggja tvíburum en ólík hjá tvíeggja tvíburum. Það er sterk sönnun þess að ákveðin genasamsetning hafi mikla þýðingu fyrir því hvort fólk fái sjúkdóminn. Fylgnihlutfallið hjá eineggja tvíburum er langt frá því að vera 100%, sem bendir til þess að aðrir þættir hafi þýðingu varðandi það hvort fólk fái sjúkdóminn. Rannsóknir síðustu ára hafa veitt innsýn í flókið og fjölgena (þ.e. mörg gen eiga þátt í myndun sjúkdómanna) eðli bólgusjúkdóma í þörmum. Sáraristilbólga tengist svokölluðum HLA-flokks II sameindum. Það eru prótein sem eru á yfirborði frumna sem tjá mótefnavaka og eiga þátt í virkni ónæmisvarnarkerfisins. Frumur sem tjá mótefni éta framandi örverur sem sameindir á yfirborði frumunnar tjá. Með því að bindast HLA-flokks II sameind geta T-eitilfrumurnar greint framandi örverur og þannig stjórnað viðbrögðum ónæmisvarnarkerfisins. Kóði HLA-genanna er mismunandi milli einstaklinga. Tegundirnar HLA-DR2, HLA-DRB1*1502, HLA-DR9 og HLA-DRB*0103 eru oft til staðar hjá sjúklingum með sáraristilbólgu og síðastnefnda tegundin tengist aukinni áhættu á að allur ristillinn verði undirlagður af sjúkdómnum og jafnframt hættu á að skurðaðgerð verði nauðsynleg. Á sama hátt tengist HLA-B27 aukinni áhættu á að fá gigtarsjúkdóm í hrygg í kjölfar þarmabólgunnar. Ekki er nákvæmlega þekkt hvaða verkunarháttur liggur að baki, því að sumar HLA-sameindir tengjast sáraristilbólgu.

Önnur gen tengjast einnig sáraristilbólgu. Af þeim má nefna breytingar í geninu sem kóðar fyrir IL‑23. Þetta er boðsameind sem á þátt í stjórnun ónæmisvarnarkerfisins. Í framtíðinni munu rannsóknir leiða í ljós hvort hömlun IL‑23 með lyfjum geti dregið úr einkennum hjá sjúklingum með bólgusjúkdóma í þörmum.