CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Meltingarvegur nýfæddra barna er laus við bakteríur og bakteríuflóran í þörmunum verður eðlileg á fyrstu mánuðum eftir fæðingu. Það eru bakteríur í öllum meltingarveginum en fjöldi þeirra er mestur í ristlinum, þar sem fjöldinn er meiri en nokkurs staðar í líkamanum. Þannig inniheldur hvert gramm af hægðum 100.000.000.000 bakteríur. Eðlileg bakteríuflóra gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum, m.a. framleiðslu vítamína, niðurbroti krabbameinsvaldandi efna og umbroti ómeltanlegra kolvetna. Í síðastnefnda ferlinu myndast fituefni sem eru næringarefni fyrir þarmaslímhúðina.

Eins og getið var um hér fyrir ofan eru fyrirliggjandi sannanir fyrir því að samsetning bakteríuflórunnar og auðveldara aðgengi fyrir bakteríur í gegnum slímhúðina eigi þátt í sjúkdómsferli bólgusjúkdóma í þörmum. Í vísindalegum rannsóknum hefur því verið reynt að hafa áhrif á sjúkdómsferlið með því að setja óskaðlegar bakteríur í þarmana. Þessi bætibakteríulyf (probiotika) innihalda sérstaka samsetningu baktería sem ekki eru sjúkdómsvaldandi, m.a. mjólkursýrubakteríur sem eru náttúrulegar í ákveðnum mjólkurvörum. Í fjölda rannsókna hafa verið rannsökuð áhrifin af bætibakteríulyfjum til að halda einstaklingum með colitis einkennalausum eða draga úr einkennum virks sjúkdóms. Niðurstöðurnar lofa góðu en þörf er á fleiri ítarlegum vísindalegum rannsóknum, sem geta varpað ljósi á hvort meðferð með bætibakteríum gagnist fólki með sáraristilbólgu.