CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Sáraristilbólgu má skilgreina sem sjálfsofnæmis-kerfissjúkdóm sem kemur aðallega fram sem langvinnur þarmasjúkdómur. Einkennin eru einkum frá þörmum, en önnur líffærakerfi geta einnig verið undirlögð (einkenni utan þarma). Algengustu einkennin eru blóðugur niðurgangur eða blóðugt slím frá endaþarmi. Í vægum tilfellum og hjá sjúklingum með endaþarmsbólgu eru þetta oft einu einkennin, þótt þau geti verið mismikil og einkennalaus tímabil komið inn á milli. Engir kviðverkir koma fram eða almenn einkenni. Við útbreiddari sjúkdóm verður blóðugur niðurgangur tíðari og það koma tilvik þar sem sjúklingur finnur fyrir skyndilegri sársaukafullri hægðaþörf og einungis kemur örlítið blóð og gröftur þegar hafðar eru hægðir. Oft eru einnig mallandi kviðverkir. Við alvarlegan sjúkdóm fær fólk mjög oft blóðugan niðurgang, kviðverki og almenn einkenni eins og þreytu, hita og þyngdartap og oft er gildi blóðrauða (blóðleysi) mjög lágt. Við læknisskoðun eru eymsli í kvið, oftast neðarlega vinstra megin, og eymsli í endaþarmi þegar þreifað er með fingri.

Einkenni utan þarma
Um 10-25% fá einkenni frá líffærum utan þarmanna. Algengust eru einkenni frá liðum (10‑20%) sem lýsa sér sem liðverkir eða liðbólgur. Orsökin er bólguferli í slímhimnu liðarins. Lítill hluti fær bakverki vegna þess að bólguferlið hefur áhrif á hryggjarliðina. Á húðina geta komið sár eða rósahnútar, sem eru aumir, heitir og rauðir hnútar framan á sköflungunum. Auk þess geta komið fram bólgur í augum og munni. Bólgur í gallvegum fylgja sjaldan sáraristilbólgu. Dæmigert er að einkennin utan þarmanna sveiflist með alvarleikastigi sjúkdómsins og það dregur úr flestum einkennunum við lyfjameðferð eða skurðaðgerð.