CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Oftast er auðveldara að greina sáraristilbólgu en Crohns-sjúkdóm þar sem sjúkdómurinn er alltaf í endaþarminum og eingöngu bundinn við ristilinn. Þannig er sjúki hluti þarmanna auðveldlega aðgengilegur fyrir rannsóknir. Samt sem áður líður oft langur tími frá því einkennin koma fyrst fram þar til sjúkdómsgreining er staðfest. Í danskri samantekt kom fram að sáraristilbólga greinist að meðaltali 4,5 mánuðum eftir að fyrstu einkenni koma fram.

Sáraristilbólga er heilkennis-sjúkdómsgreining sem byggist á fjölda einkenna og niðurstöðum holsjárrannsóknar (speglun), röntgenrannsókna og rannsókna á vefjasýnum. Sjúkdómsgreiningin er staðfest ef að minnsta kosti þrennt af eftirfarandi er til staðar:

1.     Niðurgangur og/eða blóð og gröftur í hægðum lengur en í eina viku eða endurtekin tilvik.

2.     Dæmigerðar niðurstöður holsjárskoðunar á endaþarmi.

3.     Dæmigerðar niðurstöður smásjárrannsóknar á vefjasýnum.

4.     Dæmigerðar niðurstöður holsjárskoðunar og/eða röntgenrannsóknar á ristli.

Skandinavískar rannsóknir hafa sýnt að hjá 5-20% fólks með bólgusjúkdóm í ristli er ekki með fullvissu hægt að flokka sjúkdóminn sem annaðhvort sáraristilbólga eða Crohns-sjúkdóm. Í slíkum tilvikum flokkast sjúkdómurinn sem ristilbólga af ótilgreindri ástæðu (Colitis indeterminate). Með tímanum tekst að finna nákvæma sjúkdómsgreiningu hjá 50-80% einstaklinga með ristilbólgu af ótilgreindum ástæðum.

 

Holsjárskoðun (speglun)
Holsjárskoðun af neðri hluta ristilsins er mikilvæg rannsókn þegar grunur er um sáraristilbólgu. Rannsóknin fer fram með sveigjanlegri holsjá með innbyggðri myndavél á framendanum. Í holsjánni er bæði ljós og skolunarbúnaður til þess að endinn haldist hreinn. Hægt er að blása lofti og taka vefjasýni með lítilli töng til nánari rannsóknar. Daginn fyrir rannsóknina er tekið hægðalosandi lyf sem tryggir tæmingu þarmanna. Hjá sumum getur verið nauðsynlegt að skoða allan ristilinn með holsjá (ristilspeglun). Rannsóknin fer fram á sama hátt en oftast er gefið róandi og/eða verkjastillandi lyf.

Við holsjárskoðun sjást breytingar í endaþarmi og mislangt upp eftir ristlinum. Í vægum tilvikum er slímhimnan rauð, bólgin og það blæðir úr henni við snertingu. Í svæsnari tilvikum sjást sáramyndanir og slímhimnan er þakin slími, greftri og blóði. Innihald þarmsins er oft blóðugt. Í sjúkdómshléum getur slímhúðin verið eðlileg eða fölleit og stundum sjást ör og gervisepar sem eru ummerki eftir bólguviðbrögð sem liðin eru hjá. Gervisepar eru svæði með eðlilegri eða bólginni slímhúð, sem stendur út úr yfirborði slímhúðarinnar vegna örvefsmyndunar eða herpings í slímhúðinni í kring. Það er því ekki talað um sepa í eiginlegri merkingu. Slíkir separ verða ekki illkynja.

 
Smásjárskoðun á vefjasýnum

Vefjasýni, sem tekin eru í holsjárskoðun, eru send til frekari rannsóknar. Sýnin eru sett í sérstakan vökva og send til skoðunar á rannsóknarstofu í meinafræði. Eftir frystingu, skurð í þunnar sneiðar og litun eru vefjasýnin skoðuð í smásjá. Langvinn bólgusvörun, sem takmarkast við efsta lag slímhúðarinnar, er dæmigerð fyrir sáraristilbólgu. Í slímhúðinni má sjá fjölda frumna af tegund sem nefnast kornfrumur. Þær safnast saman í litlum kýlum (kirtilkýli) efst í slímhúðinni og leiða til graftrar í hægðunum. Í alvarlegri tilvikum sjást einnig sár og blæðingar í slímhúðinni. Langvinn bólgusvörun er jafnt útbreidd í endaþarminum og nær mislangt upp eftir ristlinum, sem svarar til breytinga sem sjást í holsjárskoðun. Í mörgum tilvikum er ekki með vissu hægt að greina í vefjasýnum á milli sáraristilbólgu og Crohns-sjúkdóms og meta á niðurstöðurnar ásamt einkennum og niðurstöðum annarra rannsókna til að komast að réttri sjúkdómsgreiningu.

 

Aðrar rannsóknir
Engar blóðrannsóknir eru sértækar fyrir sáraristilbólgu en oft eru mismunandi þættir (vísar) í blóðinu notaðir til að renna stoðum undir grun um sáraristilbólgu og auk þess eru niðurstöður blóðsýna notaðar til að meta virkni sjúkdómsins. Við verulega bólgusvörun í þörmunum hækka sermisgildi bráðafasa próteinanna c-reaktífs próteins (CRP) og orosómukóíðs. Jafnframt má sjá fjölgun hvítra blóðkorna og blóðflagna. Blóðmissir frá þarmaslímhúðinni hefur oft í för með sér blóðleysi og að járnbirgðir minnki. CRP er algengasti þátturinn sem mældur er í blóði til að meta bólgusvörun. Hins vegar getur CRP verið eðlilegt hjá fólki með sáraristilbólgu, t.d. ef sjúkdómurinn er vægur eða bundinn við endaþarminn. Þess vegna er hvorki hægt að staðfesta né útiloka sjúkdómsgreininguna með blóðrannsókn einni sér. Í þeim tilvikum, þegar svæsin sáraristilbólga blossar upp, tengist hátt gildi CRP aukinni hættu á að grípa þurfi til skurðaðgerðar.

Fjöldi baktería, veira og annarra örvera veldur niðurgangi. Þegar grunur er um sáraristilbólgu er því mikilvægt að útiloka þarmasýkingu. Það sama á við um versnun sjúkdóms þegar um þekkta sáraristilbólgu er að ræða. Það er oft nauðsynlegt að senda hægðasýni til bakteríugreiningar.

Sums staðar er notuð ný aðferð við að greina bólgu í þarmaslímhúð. Kalprótektín er prótein sem er  í ónæmisfrumum líkamans af tegundinni kornfrumur. Þær eru í auknu magni í þarmaslímhúðinni við sáraristilbólgu. Við bólgusvörun útskilst kalprótektín í hægðunum og það er hægt að mæla í  hægðaprufu. Magn kalprótektíns eykst í hægðum bæði við sáraristilbólgu og Crohns-sjúkdóm, en rannsóknin er ekki sértæk fyrir þessa sjúkdóma. Þannig getur magn þess einnig aukist við þarmasýkingar, þarmabólgur af öðrum toga, krabbamein, sepa í þörmum eða við notkun bólgueyðandi gigtarlyfja (NSAID).