CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Öfugt við Crohns-sjúkdóm er hægt að lækna sáraristilbólgu með skurðaðgerð, þar sem sjúkdómurinn er einungis bundinn við ristilinn. Þó að meðferðin felist fyrst og fremst í lyfjameðferð endar með því að stór hluti sjúklinga þarf að gangast undir skurðaðgerð. Í danskri rannsókn, sem gerð var árið 1994, höfðu 23% gengist undir skurðaðgerð 10 árum eftir að sjúkdómurinn greindist og 31% tuttugu árum eftir greininguna. Aðgerðirnar eru oftast skipulagðar og bera sjaldnast brátt að.

Bráð aðgerð
Orsakir þess, að aðgerð er gerð í skyndi, er versnun svæsinnar sáraristilbólgu meðan á lyfjameðferð stendur, með verulegri blæðingu, rofi á þarmi eða sýklasótt. Ristillinn er fjarlægður í aðgerðinni og gert garnastóma. Endaþarmurinn er skilinn eftir og efsti hlutinn er saumaður saman. Þetta veitir möguleika á að ræða endanlega meðferð. Hugsanlega verður stómað varanlegt eða tengt verður aftur með því að gera nýjan endaþarm með garnapokaaðgerð. Ef sjúklingurinn kýs að hafa stómað áfram er gerð aðgerð eftir nokkra mánuði. Endaþarmurinn er fjarlægður og gert varanlegt garnastóma. Ef sjúklingurinn kýs að fara í garnapokaaðgerð eru gerðar þrjár aðgerðir með nokkurra mánaða millibili: Í bráðu aðgerðinni, sem gerð er fyrst, er ristillinn fjarlægður. Í annarri aðgerðinni er endaþarmurinn fjarlægður og sniðinn gerviendaþarmur úr mjógirnisbút. Að síðustu er gerð minniháttar aðgerð þar sem stómað er fellt inn og mjógirnið tengt við nýja endaþarminn. Aðgerðin er gerð í þremur áföngum til að lágmarka líkur á fylgikvillum.

Skipulögð aðgerð
Skipulagðar aðgerðir eru mun algengari en bráðar aðgerðir og eru gerðar vegna þess að lyfjameðferð bregst eða aukaverkanir meðferðar eru óásættanlegar. Í einstaka tilvikum eru þær gerðar vegna frumubreytinga eða krabbameins í ristli.

Áður en aðgerðin er gerð, ræða skurðlæknirinn og sjúklingurinn um það í hverju aðgerðin felst. Í dag er garnapokaaðgerð (ileo-J-pouch-anal anastomosis) hefðbundin skurðaðgerð. Annar kostur er að fjarlægja ristilinn og endaþarminn og gera varanlegt garnastóma. Í garnapokaaðgerð er ristillinn fjarlægður ásamt endaþarminum og búinn til endaþarmur úr nesta hluta mjógirnis. Neðstu u.þ.b. 20 cm af mjógirninu eru lagðir J-laga, opnaðir og saumaðir þannig saman að neðsti hluti mjógirnisins verði tvöfalt breiðari en eðlilegt er. Þannig er gerður „pouch“ sem er enska orðið fyrir poka eða sekk. Pokinn er festur með saumi við hringvöðvann sem lokar endaþarminum og það er gert tímabundið garnastóma. Tímabundna garnastómað er gert til að koma í veg fyrir hægðaleka frá pokanum inn í kviðarholið. Eftir nokkra mánuði er tímabundna garnastómað fellt inn aftur.

Fyrst, eftir að tímabundna garnastómað hefur verið fellt inn aftur, fær fólk niðurgang oft á sólarhring, en eftir 3-6 mánuði minnkar tíðni hægðalosunar niður í 5-7 skipti á sólarhring, af þeim eitt skipti að næturlagi sem flestir sjúklingar sætta sig fullkomlega við. Í danskri rannsókn, sem gerð var árið 2008, var könnuð ánægja sjúklinga eftir garnapokaaðgerð. Að meðaltali höfðu aðspurðir sjúklingar verið með pokann í sjö ár (1-19) og 88% reyndust ánægð með árangurinn. Hægðalosun hjá sjúklingunum var að meðaltali sjö sinnum á sólarhring (1-15), þar af ein hægðalosun að næturlagi (0-8) og helmingur sjúklinganna var aldrei með hægðaleka. Hinn helmingur sjúklinganna var stöku sinnum með örlítinn hægða- eða slímleka frá endaþarminum.

Í árafjöld hefur verið rætt um hvaða aldurstakmark ætti að setja fyrir garnapokaaðgerð. Áður fyrr voru menn tregir til að bjóða eldra fólki en 55 ára að fara í aðgerðina vegna aldurstengds slappleika hringvöðvans og þar með aukinnar hættu á vandamálum þegar til lengri tíma er litið. Í rannsókn, þar sem þátttakendur voru eldri en 60 ára, reyndist hins vegar starfrænn árangur sambærilegur og hjá yngra fólki. Því er ákvörðun um garnapokaaðgerð grundvölluð á einstaklingsbundnu mati, óháð aldri fólks.