CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Sáraristilbólga er fyrst og fremst meðhöndluð með lyfjum í þeim tilgangi að draga úr virkni ónæmisvarna þarmaslímhúðarinnar. Forsendur fyrir vali á lyfjameðferð eru mat á alvarleikastigi sjúkdómsins og útbreiðslu (virkni sjúkdómsins og flokkun).

Lyf

5-amínósalicýlsýru-lyf (5-ASA-lyf) -Dæmi: Súlfasalasín, mesalasín. Lyfin draga úr bólgusvörun í þarmaslímhúðinni, en nákvæmlega hvernig verkun er háttað er enn óljóst. 5-ASA-lyf má bæði nota til meðhöndlunar á virkum sjúkdómi og til að fyrirbyggja sjúkdómsvirkni eftir að sjúkdómshléi er náð. Lyfið er í töfluformi til inntöku eða í stílaformi eða sem lausn til staðbundinnar notkunar í endaþarm. Algengustu aukaverkanirnar eru hiti, ógleði, uppköst, kviðverkir, niðurgangur, höfuðverkur og útbrot, sem koma fyrir hjá 10% sjúklinga og hverfa þegar lyfjameðferð er hætt. Staðbundin meðferð með stílum veldur sjaldan aukaverkunum.

Barksterar - Barksterar eru notaðir til meðferðar á virkri sáraristilbólgu en eru ekki notaðir til fyrirbyggjandi meðferðar. Prednisólon er barksteri sem verkar almennt (þ.e. virkar um allan líkamann) og hamlar virkni ónæmiskerfisins á árangursríkan hátt með því að hindra myndun fjölda boðefna í bólguferlinu. Næstum allur skammturinn sem tekinn er inn frásogast úr þörmunum, sem veldur áhrifum víðar en í þörmunum (aukaverkunum). Prednisólon er árangursríkt til meðhöndlunar á sáraristilbólgu og er notað til meðhöndlunar á í meðallagi mikið virkum og svæsnum sjúkdómi. Lyfið er tekið inn í töfluformi eða gefið með inndælingu í blóðrásina (sprautað í bláæð). Algengustu aukaverkanir, sem eru skammvinnar, eru óróleiki, roði, svitatilhneiging, blóðsykurshækkun, aukin matarlyst, breytt fitudreifing og úrkölkun beina. Hjá fólki með skerta hjartastarfsemi sést skerðing á dælugetu hjartans. Aukaverkanirnar líða hjá eftir að meðferðinni er hætt.

Önnur ónæmisbælandi lyf - Azatíóprín og 6-merkaptópúrín draga úr bólguferlinu með því að hamla skiptingu og þroska T‑eitilfrumna. Bæði lyfin eru árangursrík til að fyrirbyggja bakslag hjá einstaklingum sem fá tíðar versnanir og geta dregið úr þörf fyrir barkstera. Auk þess er meðferðin árangursrík hjá sjúklingum sem geta ekki hætt á barksterameðferð án þess að fá bakslag. Allstór hluti þarf að hætta meðferðinni vegna aukaverkana. Sumar aukaverkanir eru skammtaháðar en aðrar ekki og orsakast það af óþoli fyrir virka innihaldsefninu.

Ciclosporin er öflugt ónæmisbælandi lyf sem verkar með því að hamla virkni T-eitilfrumna. Það er fyrst og fremst notað til ónæmisbælingar eftir líffæraflutninga en er nú í auknum mæli notað við öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum. Það er notað í sérstökum tilvikum við svæsinni sáraristilbólgu.

Sýklalyf - Metrónídasol og síprófloxasín eru sýklalyf sem verka gegn bakteríum í þörmunum. Lyfin hafa ekki áhrif á sjúkdómsferlið og eru eingöngu notuð þegar bakteríusýking á þátt í sjúkdómsferlinu.

Meðferð með lífefnalyfjum - Dæmi: Infliximab, adalimumab. Á flókinn og enn ekki fullþekktan hátt hemja nýju lífefnalyfin bólgusvörun í sáraristilbólgu. Á sama hátt dregur úr bólguferli fjölda annarra sjálfsofnæmissjúkdóma, t.d. Crohns-sjúkdóms, iktsýki, sóra, sóragigtar og hryggiktar. Lyfin samanstanda af heilum mótefnum eða hluta úr mótefnum sem beinast gegn boðefninu TNF-alfa (tumor necrosis factor alfa). Með því að blokka boðsameindina dregur úr skiptingu og virkni T‑eitilfrumna og sjúkdómsvirknin minnkar.

Einstaklingar með hjartabilun mega ekki nota lífefnalyf. Eins á að gera hlé á meðferð ef sjúklingur er með sýkingu þegar komið er að lyfjagjöf, þar sem bæling ónæmiskerfisins getur leitt til þess að sýking versni. Áður en meðferðin er hafin þarf að athuga hvort sjúklingurinn er með berkla. Almennt eru lífefnalyf álitin örugg en enn sem komið er, liggja ekki fyrir nægar upplýsingar um langtímaverkun meðferðarinnar.