Meðganga
Algengast er að sáraristilbólga komi fram hjá ungu fólki á milli tvítugs og þrítugs. Því er oft þörf á ráðgjöf varðandi meðgöngu, fæðingu og brjóstagjöf. Sáraristilbólga hindrar ekki meðgöngu. Þó er aukin hætta á minni fæðingarþyngd og ótímabærri fæðingu ef konan er með virkan sjúkdóm við getnað og á meðgöngu. Mælt er með að skipuleggja þungun þegar sjúkdómsvirknin er lítil og í samráði við lækninn sem sér um meðferðina. Versnun á meðgöngu má meðhöndla með 5-ASA-lyfi eða prednisóloni (barksteri), auk þess sem halda má áfram á fyrirbyggjandi meðferð með 5-ASA-lyfi eða azatíótrópíni. Konur með sáraristilbólgu fæða á eðlilegan hátt, en eftir garnapokaaðgerð er mælt með keisaraskurði vegna hættu á að skadda hringvöðvann og vandamálum með hægðaleka í kjölfarið.
5-ASA-lyf, prednisólon (barksteri) og aztíótrópín skiljast í litlum mæli út í brjóstamjólk. Því mega konur halda áfram brjóstagjöf á meðan þær eru á þessum lyfjum.
Frjósemi
Takmarkaðar upplýsingar úr vísindarannsóknum eru fyrirliggjandi um frjósemi karla með sáraristilbólgu. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru engar vísbendingar um skerta frjósemi karla með sáraristilbólgu samanborið við fullfríska karlmenn. Hins vegar hefur verið sannað að meðferð með súlfazalasíni skerðir gæði sæðisfrumna. Í tveimur rannsóknum hefur verið sýnt fram á skerta frjósemi hjá konum sem gengist hafa undir garnapokaaðgerð. Því stendur þeim til boða að fara í tæknifrjóvgun ef þeim hefur ekki tekist að verða þungaðar á einu ári.