Meðferðin við Crohns-sjúkdómi er fyrst og fremst með lyfjum, en þrátt fyrir framfarir í lyfjameðferð fá flestir fylgikvilla sem krefjast skurðaðgerðar. Þannig þurfa 70% einstaklinga með Crohns-sjúkdóm að gangast undir einhvers konar skurðaðgerð innan 10 ára frá því sjúkdómurinn greinist. Skurðaðgerðin getur orðið til þess að slá á einkennin í langan tíma en læknar ekki sjúkdóminn. Í rannsókn á 182 sjúklingum sem höfðu gengist undir skurðaðgerð vegna Crohns-sjúkdóms þurftu 31% að gangast undir aðra skurðaðgerð innan eftirfylgnitímabilsins, sem varði í 14 ár. Oftast kemur sjúkdómurinn aftur á sama svæði á mörkunum þar sem þarmurinn var saumaður saman.
Aðgerðar er oftast þörf vegna ígerðar, fistilmyndunar eða þrengsla í þörmunum. Auk þess getur árangursleysi lyfjameðferðar verið ástæðan fyrir skurðaðgerð. Í sjaldgæfum tilvikum er bráðaaðgerð nauðsynleg, oftast vegna garnastíflu sem er afleiðing af miklum þrengslum í þörmunum.
Aðgerðartegundir
Til að varðveita starfsemi þarmanna er beitt íhaldssömum skurðaðgerðum til að hlífa sem stærstum hluta af heilbrigðum þarmavef. Við skipulagningu aðgerðarinnar er mikilvægt að hafa yfirlit yfir alvarleikastig sjúkdómsins, staðsetningu hans og fylgikvilla. Það er gert með holsjárskoðun af ristlinum og rannsókn á smágirninu.
Oftast er sjúkdómurinn staðsettur á smágirnis- og botnristilssvæðinu (ileocoecal svæðinu). Í skurðaðgerðinni er sjúki hluti þarmsins fjarlægður og endarnir tengdir saman með saumi, án þess að gerð sé stómía.
Ef sjúkdómurinn er í smágirninu má oft fjarlægja hluta af girninu og síðan eru endarnir saumaðir saman. Annar kostur er að gera aðgerð vegna þrengsla á ákveðnu þarmasvæði. Í þeim tilvikum er þarmurinn skorinn langsum og síðan saumaður saman þversum. Þetta eykur þvermál þarmsins og fæðan kemst í gegn, sem dregur úr einkennum sjúklingsins og varðveitir lengd þarmsins.
Skurðaðgerð við Crohns-sjúkdómi í ristlinum er háð staðsetningu sjúkdómsins. Ef lítill hluti ristilsins er undirlagður má fjarlægja sjúka hlutann og sauma endana saman án þess að gera stómíu. Sjúkdóm í stórum hluta ristilsins, sem ekki er einnig í endaþarminum, má meðhöndla með því að fjarlægja ristilinn og í framhaldi af því að sauma saman smágirni og endaþarm án þess að gera stómíu. Við útbreiddan sjúkdóm í ristli og endaþarmi er allur ristillinn fjarlægður og gerð stómía. Stundum getur verið nauðsynlegt að gera tímabundna stómíu. Hvíld ristilsins leiðir til sjúkdómshlés hjá u.þ.b. 90% sjúklinga. Hjá sjúklingum sem ekki eru með sjúkdóminn í endaþarmi má stundum gera tímabundna stómíu og á þann hátt sleppur þriðjungur þeirra við varanlega stómíu. Ef sjúkdómurinn er einnig í endaþarmi er árangurinn lítill og í þeim tilvikum er meðferðin aðeins tímabundin, á meðan verið er ná stjórn á sjúkdómnum fyrir annars konar skurðaðgerð.
Crohns-sjúkdómur er ein af algengustu orsökum fyrir stómíu. Tuttugu árum eftir sjúkdómsgreininguna eru 20% með stómíu og í heild hafa 40% einhvern tíma verið með stómíu (tímabundna eða varanlega).Alvarlegur útbreiddur Crohns-sjúkdómur í ristli og alvarlegur Crohns-sjúkdómur í endaþarmi með fistlamyndun og ígerð er algengasta orsökin fyrir stómíu.
Skurðmeðferð við fistlum og graftarkýli í kviðarholi: Aðeins á að meðhöndla fistla sem valda einkennum. Skurðmeðferðin felst í brottnámi sjúka hluta þarmsins, þaðan sem fistillin liggur. Fistilopinu, t.d. á húðinni eða í leggöngunum, er síðan lokað. Graftarkýli í kvið má meðhöndla með skurðaðgerð með því að fjarlægja sjúka þarmahlutann og oft er þörf á tímabundinni stómíu. Annar valkostur er að leggja inn slöngu (dren) í ómskoðun, þá er graftarkýlið tæmt og síðan skolað út með sæfðu vatni. Hættan á endurtekinni ígerð er þó minnst eftir skurðaðgerð.
Crohns-sjúkdómur við endaþarmsop: Fistlar sem ganga út frá endaþarmsopi og endaþarmi eru oft margslungnir og áður en þeir eru meðhöndlaðir þarf að liggja fyrir nákvæm lýsing á því hvernig þeir liggja. Það er rannsakað í fullri deyfingu/svæfingu í segulómskoðun eða ómskoðun.29 Oft má kljúfa fistla sem liggja grunnt, þ.e. fistillinn er skorinn langsum og síðan grær sárið frá botni. Við fistla sem eru mjög margslungnir er oft sett seton, sem er þunnur nælon- eða silikonþráður, sem lagður er í gegnum fistilinn, þráðurinn skapar fráveitu sem verður til þess að draga úr bólguviðbrögðunum. Flestir fá engin eða lítil einkenni við notkun setonþráða. Þó er meðferðin oft ófullnægjandi og gott getur verið að nota lyfjameðferð samhliða eða skurðaðgerð í framhaldi af meðferðinni. Í aðgerðinni er innra opi fistilsins lokað með því að fjarlægja heilbrigðan slímhúðarbút úr þarminum og setja hann yfir op fistilsins. Hjá 50-75% grær sárið. Yfirborðsígerðir í kringum endaþarmsopið eru meðhöndlaðar með einfaldri aðgerð þar sem kýlið er tæmt og hreinsað. Síðan grær sárið frá botni.