Fjöldi umhverfisþátta er talinn tengjast bólgusjúkdómum í þörmum. Ekki er ljóst hvernig mismunandi, og að því er virðist óháðir þættir, hafa áhrif á ónæmiskerfið.
Reykingar eru sá áhættuþáttur fyrir Crohns-sjúkdómi sem mestar upplýsingar eru fyrirliggjandi um. Áhættan fyrir að fá sjúkdóminn er u.þ.b. tvisvar sinnum meiri hjá reykingafólki. Auk þess auka reykingar áhættuna á bakslagi eftir skurðaðgerð eða lyfjameðferð hjá fólki með þekktan Crohns-sjúkdóm. Nákvæmlega hvað orsakar þessi áhrif er enn ekki ljóst.
Einnig er talið að efni í fæðunni geti haft áhrif á sjúkdómsvirknina. Í lítilli rannsókn var sýnt fram á að öragnalaust (t.d. ál og títan) mataræði geti dregið úr virkni Crohns-sjúkdóms. Á sama hátt getur grunnmataræði (elemental diet) dregið úr sjúkdómsvirkninni. Grunnfæði er samansett úr byggingarefnum sem eru nauðsynleg fyrir líkamann (t.d. amínósýrur í stað próteins) og krefjast ekki meltingar til að geta frásogast úr þörmunum. Hugsanlegt er að verkunin sé vegna breytinga á samsetningu bakteríuflórunnar í þörmunum. Staðfest hefur verið að fólk með þarmasjúkdóma neyti meiri súkrósa, sem m.a. er í strásykri, og meira af hreinsuðum (unnum) kolvetnum. Ennfremur hafa rannsóknir sýnt fram á neikvæð áhrif af mikilli fituneyslu. Fituskert mataræði, sem inniheldur aðallega stuttar og meðallangar fitusýrukeðjur ásamt fjölómettuðum fitusýrum (omega-3, m.a. í fiski og lýsi), getur dregið úr sjúkdómsvirkni bólgusjúkdóma í þörmum. Hins vegar vantar ítarlegar vísindalegar rannsóknir til að sýna fram á hvort sérstakt mataræði gagnast einstaklingum með Crohns-sjúkdóm.
Notkun bólgueyðandi gigtarlyfja (NSAID) og getnaðarvarnarpillunnar hefur jafnframt verið talin tengjast þróun bólgusjúkdóma í þörmum. Hvað getnaðarvarnarpilluna varðar, hafa rannsóknir sýnt það gagnstæða, þ.e. að notkun hennar virðist ekki hafa áhrif á sjúkdómsferli Crohns-sjúkdóms.