Meðganga
Algengast er að Crohns-sjúkdómur komi fram hjá ungu fólki á milli tvítugs og þrítugs, því er oft þörf á ráðgjöf varðandi meðgöngu, fæðingu og brjóstagjöf. Crohns-sjúkdómur hindrar ekki meðgöngu. Þó er aukin hætta á minni fæðingarþyngd og ótímabærri fæðingu ef konan er með virkan sjúkdóm við getnað og á meðgöngu. Mælt er með að skipuleggja þungun þegar sjúkdómsvirknin er lítil og í samráði við lækninn sem sér um meðferðina. Versnun á meðgöngu má meðhöndla með prednisólon, auk þess sem halda má áfram á fyrirbyggjandi azatíótrópín-meðferð. Konur með Crohns-sjúkdóm fæða á eðlilegan hátt, en ef sjúkdómurinn er í endaþarminum eða í kringum endaþarmsopið skal skipuleggja fæðinguna í samráði við fæðingarlækninn. Prednisólon og aztíótrópín skiljast í litlum mæli út í brjóstamjólk. Því mega konur halda áfram brjóstagjöf á meðan þær eru á þessum lyfjum.
Frjósemi
Takmarkaðar upplýsingar úr vísindarannsóknum eru fyrirliggjandi um frjósemi karla meðCrohns-sjúkdóm. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru engar vísbendingar um skerta frjósemi karla með Crohns-sjúkdóm samanborið við fullfríska karlmenn. Hins vegar hefur verið sannað að meðferð með salazópýríni (5ASA) skerði gæði sæðisfrumna.