Nýtt fréttabréf fyrir apríl mánuð er komið út. Þar erum við aðallega að kynna næsta evrópufund ungliðahreyfingar Efcca sem verður haldinn í Tampere í Finnlandi 16.-19. júlí. CCU áætlar að senda tvö ungmenni á aldrinum 18 til 30 ára á fundinn og hvetjum við unga fólkið til að sækja um. Umsóknarfrestur er til 30 apríl en nánari upplýsingar er að finna í fréttabréfinu.
Næsti fræðslufundur CCU samtakanna verður haldinn fimmtudagskvöldið 5. mars. Hann er sameiginlegur með Stómasamtökunum og fyrirlesari er Svandís Antonsdóttir. Hún ætlar að segja okkur frá sinni reynslu, var með Colitis, fékk stóma og tók þátt í Ironman fimm mánuðum seinna. Fundurinn verður í Skógarhlíð 8 og hefst kl. 20.00
Þriðjudagskvöldið 27. janúar næstkomandi er boðað til aðalfundar CCU og eru hefðbundin aðalfundarstörf á dagskrá
Þegar aðalfundinum er lokið tekur Jóna Björk Viðarsdóttir við og kynnir fyrir okkur niðurstöður úr MS ritgerð sinni um mataræði og næringarástand IBD einstaklinga. Hópur af okkar félagsmönnum tók þátt í rannsókninni og verður eflaust fróðlegt að heyra niðurstöðurnar. Fundurinn verður í sal Vistor, Hörgatúni 2, Garðabæ og hefst kl. 20:00.
Næsti fræðslufundur verður mánudagskvöldið 24. nóvember. Fyrirlesari verður Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur. Mjöll hefur meðal annars sérhæft sig í að veita þeim stuðning sem eru að takast á við veikindi, hjóna og parameðferðum, ásamt meðferðum við streitu, kvíða, þunglyndi og verkjum. Mjöll hefur einnig sótt námskeið og fyrirlestra í heilsusálfræði. Hún snýst m.a. um að afla sér sálfræðilegrar þekkingar til að stuðla að góðri heilsu og koma þannig í veg fyrir sjúkdóma, finna út hverjir eru í mestri hættu að fá sjúkdóma og af hverju og finna út hvers konar hegðun og reynsla leiðir til góðrar eða slæmrar heilsu. Þetta er mjög áhugaverður hluti sálfræðinnar og eitthvað sem flestir geta nýtt sér.
Fyrirlesturinn hefst kl: 20.00 og verður í sal Vistor, Hörgatúni 2, Garðabæ. Kaffi verður á könnunni og eitthvað gott með.
Takið frá mánudagskvöldið 22.september næstkomandi því þá verður fyrsti fræðslufundur haustsins. Meltingarsérfræðingurinn Sigurjón Vilbergsson ætlar að heimsækja okkur og velta meðal annars upp þessari spurningu; Skiptir mataræðið máli ? Matur er svo stór hluti af okkar tilveru og verður fróðlegt að heyra hvað hann hefur til málanna að leggja. Fundarstaður er sem oft áður salurinn í Vistor, Hörgatúni 2, Garðabæ og hefst hann kl. 20.00. Kaffi verður á könnunni og eitthvað hollt og gott með.
Jóna Björk Viðarsdóttir mun verja MS ritgerð sína þriðjudaginn 2.sept kl. 14:00 í Eirbergi, (stofa 203C) við Eiríksgötu. Ritgerðin heitir: Neysla og næringarástand einstaklinga með bólgusjúkdóma í meltingarvegi. Markmiðið með rannsókninni var að:
- Kanna mataræði og næringarástand IBD sjúklinga á Íslandi
- Kanna hvaða fæðutegundir eru tengdar sjúkdómsvirkni
- Kanna hvort neysla/takmörkun á ákveðnum fæðutegundum hefði áhrif á næringarástand.
Leiðbeinandi er Alfons Ramel, PhD og prófdómari er Jón Örvar Kristjánsson, lyflækningar og meltingarsjúkdómar.
Jóna býður alla velkomna á fyrirlesturinn.
Ætlar þú að hlaupa til góðs í Reykjavíkurmaraþoninu ? CCU samtökin eru skráð sem eitt af góðgerðarfélögunum í hlaupinu sem fer fram þann 23. ágúst næstkomandi. Fjölmargir einstaklingar hlaupa til góðs og enn fleiri heita á þá sem hlaupa. Þannig leggja margir lið og styrkja gott málefni.
Ef þú vilt hlaupa til góðs og safna áheitum fyrir CCU samtökin getur þú skráð þig í hlaupið á marathon.is og ef þú vilt heita á einhvern þá geturðu smellt hér og valið hlaupagarp.
Við þökkum kærlega bæði þeim sem hlaupa og þeim sem heita á fyrir stuðninginn og gangi ykkur vel.
Með fyrirfram þökk, CCU samtökin
Rukkun fyrir félagsgjöldunum 2014 birtist í heimabönkum félagsmanna um miðjan Júní. Eins og fyrri ár sendum við ekki út gíróseðla heldur bara rukkun í heimabanka. Síðustu ár áttu sumir í vandræðum með að greiða reikninginn en það á að vera búið að laga þá villu. Ef einhver er ennþá í vandræðum, þarf að eyða nafni félagsins í skýringum vegna úrfellingarmerkisins í Chron´s og þá á að vera hægt að greiða án vandræða.
Í tilefni af alþjóðlegum IBD degi sem er 19. maí (Inflammatory Bowel Disease) viljum við biðja alla sem geta og vilja, að setja “badge” inn á fésbókarsíður sínar og fá fólk til að deila merkinu. Með þessu viljum við reyna að auka almenna vitund á málefninu og vekja athygli á deginum. Smellið á merkið hér fyrir neðan til að sækja það og bæta því við fésbókina ykkar. Nánari upplýsingar um daginn og merkið er á fésbókarsíðunni.